Áfram ríkisstjórn!
4.1.2016 | Hreiðar S. Arnarson
Nú verð ég að fagna þeim framkvæmdum sem ríkisstjórnin hefur komið af stað. Svo er mál með vexti að húsnæðislán mín hafa lækkað alveg gífurlega samfara leiðréttingunni. Það lán sem ég hafði tekið árið 2005 hækkaði svo mikið í kjölfar kreppunar að ég hafði íhugað það að flýja land en ef ekki hefði verið fyrir páfagaukinn minn, hann Gylfa, hefði ég ekki verið hér til þess að skrifa þessa grein. Í mörg ár þjáðist ég vegna þessara skulda sem ég gat engan veginn séð fram á að geta greitt. Ég þjáðist þangað til maður að nafni Sigmundur Davíð kom fram á sjónarsviðið með þvílíkri reisn og fagmannleika að ég gat ekki annað gert en að kjósa flokk þessa drengs sem hafði nú lofað að hjálpa fólki eins og mér sem átti í skuldavanda á þessum tíma. Nú þremur árum síðar höfum ég og Gylfi páfagaukur það gott. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af himinháum lánum vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að leggja í þetta snilldarverkefni.
Þó að við höfum ekki enn greitt öll þau lán sem þarf að greiða vitum við báðir að framundan eru góðir tímar.
